Um Anna Elísa

Anna Elísa er leikskólakennari og lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri

Hlaup í skarðið og bófaleikur

Nafn nema: Sara Björk Sigurðardóttir

Dagsetning: 26. janúar

Fæðingarár: 1962

Uppvaxtarstaður: Hafnafjörður (í sveit fram að grunnskóla)

Sigurður J. Guðmundsson er fæddur árið 1962 og ólst upp í sveit á hans yngstu árum. Þegar að hann var svo 7 ára hófst grunnskólaganga hans í Hafnafirði. Í sveitinni man Siggi meira eftir útiveru en einhverjum ákveðnum leikjum eins og labba á fjöll, sulla í lækjum og þessháttar fram að grunnskóla. Hann átti tvo eldri bræður og einn yngir á þessum tíma (urðu svo sex bræðurnir allt í allt) og þeir leikir sem þeir léku sér saman í voru feluleikur og byggingaleikur.

Eldri bræður hans og Siggi smíðuðu oft saman fleka eða aðra hluti út spýtum sem þeir fundu í sveitinni. Saman gátu þeir eytt tímunum og dögum saman að smíða eitthvað, laga, gera við eða búa til brýr yfir læki. Þeir bjuggu stundum til fleka til þess að setja út á lítið vatn sem var nálægt. Annars var síðan bara meira um sveitastörf inn á milli þarf sem hann hjálpaði foreldrum sínum við þau störf sem þurfti að sinna.

Síðan þegar Siggi byrjaði í grunnskóla man hann eftir að hafa lært mikið af nýjum leikjum í skólanum af hinum krökkunum. Hann man eftir leikjum eins og fallin spýta, parís, yfir og eltingarleik. Hann lýsti líka leik þar sem krakkarnir stóðu allir í hring haldandi í hendur, síðan „er einn hann“ og hleypur og slær á rassinn á einhverjum og síðan hlaupa þeir tveir sitthvorn hringinn þar til annar nær plássinu. Sá aðili snýr sér þá við til þess að sína að hann hefur tekið þátt og hinn þarf að finna sér nýtt fórnarlamb til þess að reyna að stela plássinu. Siggi lýsti þessum leik en mundi ekki hvað hann hét. Ég sjálf mundi eftir þessu leik í grunnskóla og minnir að hann heiti hlaup í skarðið. Seinasti leikurinn sem Siggi minntist á var bófaleikur þar sem nokkrir krakkar léku saman. Þá voru tveir bófarnir að safna í sitt lið og reyna að ná sem flestum. Þessi leikur var þar með bland af felu- og eltingarleik. Þeir sem að voru hann ekki áttu að fela sig og hlaupa undan bófunum sem voru hann en svo smátt og smátt saman urðu krakkarnir klukkaðir í mismunandi lið.

Skjóta, detta, dæma

Nafn nema: Rebekka Rut Rúnarsdóttir

Dagsetning: 23. Janúar 2016

Fæðingarár: 1978

Uppvaxtarstaður:  Vopnafjörður

Ég fæddist árið 1978 í Reykjavík. Foreldrar mínir koma báðir frá Reykjavík en rétt áður en ég fæddist fluttust þau ásamt tveimur eldri systrum mínum til Vopnafjarðar. Ég ólst því alla mína barnæsku upp á Vopnafirði.  Skyldur mínar á heimilinu voru litlar. Það eina sem ætlast var til af mér var að ég myndi halda herberginu sínu hreinu og það gekk bara alls ekki alltaf vel. Við systurnar þurftum samt stundum að vitja neta fyrir pabba en það var ekki gert með neinni gleði þegar manni var sagt að fara út að athuga með fisk í netunum.

Þegar ég var lítil var mikið um útileiki í hverfinu mínu. Við krakkarnir söfnuðum liði og fórum í leiki. Þá var farið í fallin spýta, eina krónu, löggu og bófa svo eitthvað sé nefnt. Eins lékum við okkur mikið á róluvelli sem var þarna í hverfinu, en það var þó ekki þessi hefðbundnu sandkassaleikir eða þannig heldur var aðal skemmtunin að hlaupa fyrir rólur þar sem aðrir róluðu sér á fullri ferð og vona að maður myndi nú ekki fljúga fram af pallinum. Oftast tókst þetta vel en stundum komu þó smá slys fyrir eins og handleggsbrot eða sár, en það stoppaði okkur ekki.

Þegar ég hugsa til baka um hvaða leikur kemur sterkast upp í minningunni er það leikur sem við kölluðum skjóta, detta, dæma. Leikurinn var þannig að einn þátttakandi var sá sem skaut og svo voru tveir sem dæmdu. Þeir sem eftir stóðu áttu að leika það hvernig þeir myndu lenda eftir að hafa orðið fyrir skoti. Þeir sem lentu best og tóku mestu áhættu við fallið sigruðu. Þennan leik léku allir sem vildu vera með, hvort sem það voru strákar eða stelpur. Ég tel þó þennan leik hafa höfðað meira til strákanna en stelpnanna. Maður mátti velja sér það vopn sem maður vildi lenda fyrir og svo var bara að nota leiklistarhæfileikana og reyna sitt besta til þess að heilla dómarana. Við höfum verið á aldrinum 5- 11 ára í þessum leik og því mikið aldursbil á milli okkar.

Þegar ég hugsa til baka um þennan leik þá bara get ég ekki annað en hrist hausinn, þetta er hræðilegur leikur og ég er fegin því að hann varð ekki vinsæll svo ég viti. Að leika það að deyja og vinna ef maður dó nægilega hræðilega er auðvitað bara skelfilegt og ekki fallegur leikur.

Ég lék mér þó líka í fullt af skemmtilegum og fallegri leikjum. Þegar ég varð eldri lék ég mér meira í innileikjum. Við t.d. héldum tónleika, settum upp tískusýningar og lékum okkur í Barbie og Playmobil.

Leikurinn skjóta, detta, dæma stuðlar ekki að miklum lærdómi. Frekar ætti hann að standa fyrir það sem börn ættu ekki að gera.  Þessi leikur var mjög óviðeigandi fyrir börn og ef fullorðna fólkið hefði vitað um það sem við vorum að bralla hefðu þau mjög líklega bannað okkur að leika hann.

 

Búaleikur og Glasabörn

Nafn nema: Rebekka Rut Rúnarsdóttir

Dagsetning: 19. janúar 2016

Nafn viðmælanda: Svandís Sigurðardóttir

Fæðingarár: 1935

Uppvaxtarstaður: Látraströnd/ Svínárnes

Viðmælandi minn heitir Svandís Sigurðardóttir  fædd árið 1935.  Svandís fæddist á Grenivík en ólst upp í sveitabæ á Látraströnd sem hét Svínárnes. Svandís er ein af 9 systkinum en 3 af þeim voru hálfsystkin hennar og voru þau mikið eldri og voru flutt að heiman þegar Svandís var lítil stelpa. Systkinahópurinn sem ólst upp saman taldi því 6 krakka og Svandís næst elst af þeim hópi.

Þegar Svandís hugsar til baka um leikina sem hún lék sem barn koma margir leikir upp í hugann. Leikirnir voru til dæmis fallinn spýta, yfir, í grænni lautu, feluleikur og að hlaupa í pottinn. Það voru tveir leikir sem Svandís talaði mest um. Sá fyrri var búaleikur. Hann var þannig að börnin gerðu sér sinn sveitabæinn hver. Þau notuðu bein sem dýr, leggir úr kindum voru notaðir sem hestar, smá kjúkur úr leggjunum voru hundar, kjálkarnir voru kýrnar og hornin voru svo kindurnar. Börnin gerðu svo girðingu með litlum spýtum og strengdu spotta á milli. Hver og einn átti sitt bú og þótti þeim afar vænt um búin sín og gátu unað heilu og hálfu dagana að leika sér í því. Systkinin voru mjög samrýmd og léku sér mikið saman, fyrir utan yngstu systurina sem var svo mikið yngri. Bærinn var mjög afskektur og á veturna kom sárasjaldan fólk þangað þar sem það var mjög snjóþungt  og því urðu börnin að vera dugleg að leika við hvort annað.  Ekkert rafmagn var á bænum heldur notaðist heimilisfólkið við olíuljós. Börnin lærðu snemma að taka til verka og hjálpuðu þau til dæmis til við heyskap, að sinna dýrum og eins lærði Svandís aðeins 7 ára að prjóna og gat því hjálpað til við að prjóna sokka fyrir heimilisfólkið.Svandís fór ekki í skóla fyrr en hún var tíu ára og þá var það þannig að hún dvaldist á Grenivík í mánuð og svo mánuð heima svo að hún var mikið til staðar á heimilinu og gat því hjálpað til við það sem hentaði hennar aldri.

Ekki var til mikið dót á þessum tíma og rifjar Svandís upp annan leik og það var  þegar hún og systur hennar bjuggu sér til glasabörn. Glasabörn voru litlar glerflöskur sem voru klæddar í tuskur sem kippt hafði verið gat í og smeygt yfir stútinn og svo band bundið um hana miðja. Þetta var notað í staðinn fyrir dúkkur. Þegar Hún varð 10 ára eignaðist hún svo dúkkuhaus úr gipsi og saumaði móðir hennar búkinn og þá var komin þessi fína dúkka. Börnin þurftu að hafa ofan af fyrir sér sjálf og bjuggu þau til ýmis leikföng úr því sem þau höfðu. Hún minnist þessa daga sem góðra daga og að alltaf hafi verið líf og fjör og enginn tími til að láta sér leiðast því alltaf var nóg að gera.

Búaleikur þjálfar börn að setja þig í hlutverk annarra. Börn geta sett sig inn í störf fullorðinna t.d. og fengið að ráða atburðarrásinni sem þeirra búaleikur snýst um. Eins læra börn samvinnu því ef mörg bú eru saman komin þarf að læra að vera góður nágranni. Það að búa sér til dúkkur úr flöskum og kalla það glasabörn sýnir að börnin voru dugleg að bjarga sér sjálf þegar kom að skemmtun. Þau voru hugmyndarík og dóu ekki ráðalaus þó að „venjuleg“ leikföng væru ekki til staðar svo þetta hefur þroskað sköpunargáfur þeirra.

 

 

Búaleikur

Nafn nema: Rebekka Rut Rúnarsdóttir

Dagsetning: 17. janúar 2016

Nafn viðmælanda: Inga Sonja Eggertsdóttir

Fæðingarár: 1950

Uppvaxtarstaður: Reykjavík / Brúnavellir

Viðmælandi minn heitir Inga Sonja Eggertsdóttir og er hún fædd árið 1950. Inga er ein af 6 systkinum. Systkinahópurinn stendur saman af  5 strákum og tveimur stelpum. Inga er þriðja í aldursröðinni

Inga ólst upp í Reykjavík til ellefu ára aldurs en þá flutti hún ásamt fjölskyldu sinni í Garðabæ. Flest öll sumur var hún þó í sveit hjá skyldfólki í Árnessýslu á bænum Brúnavellir. Þegar ég spyr Ingu um leiki á uppvaxtarárunum koma nokkrir til umræðu en helst stendur þó búaleikur og mömmuleikur upp í minningunni. Hún minnist þess að krakkarnir í sveitinni um 6-7 talsins hafi unað sér vel í að leika í búa leik og flétta hann saman við mömmuleik. Leikurinn snérist um að matbúa með drullumalli og voru stelpurnar oftast mömmurnar og strákarnir pabbarnir. Strákarnir tóku virkan þátt í leiknum en þeir áttu þó annarskonar bú en stelpurnar. Á meðan stelpurnar söfnuðu öllu sem hægt var að nota í þykjustunni matargerð eins og til dæmis brotnum diskum, bollum og alls konar dollum þá notuðu strákarnir bein og bjuggu sér til bú með dýrum. Þeir léku bændur og reittu gras fyrir dýrin og bjuggu til girðingar úr steinum . Allt sem hægt var að nota var safnað í bú og áttu krakkarnir orðið stórt og mikið bú og höfðu gaman af því að leika sér í því á milli verka sem þau þurftu að sinna í sveitinni. Á sumrin var til dæmis einnig leikið sér í feluleik í hlöðunni. Inga þurfti að taka þátt í verkum á bænum og öll börnin sem þar voru, það var sjálfsagt að börn hjálpuðu eins mikið til og hægt var til að létta undir.  Hún talar um að tíminn hafi verið góður og minnist uppvaxtar síns sem góðum tíma og að hún hafi ekki þurft að hafa áhyggjur eins og mörg börn þurftu að hafa á þessum tímum. Fjölskyldan var samheldin og gerði margt saman og æska hennar var gleðileg og skemmtileg.

Þegar Inga var ekki í sveitinni þá léku krakkarnir í hverfinu sér í fleiri leikjum eins og til dæmis í grænni lautu og snúsnú. En Þar var líka búaleikur leikinn en þó ekki með beinum og búin voru minni.  Mikið meira var um útileiki en inni þó að krakkarnir hafi alveg leikið sér inni ef veður var vont en það var mikið minna um það.

Ég tel af þessum leikjum sem Inga taldi upp þá sé gamli búaleikurinn ekki eins áberandi í dag. Börn leika sér í fullt af hlutverkjaleikjum sem eru byggðir eins upp og búaleikur, munurinn er kannski sá að þessi búaleikur var eingöngu utandyra en hlutverkaleikurinn í dag er mjög oft innan dyra þar sem börn eru að leika sér að matbúa og gefa vinum, ættingjum og dúkkum að smakka á þykjustunni mat.

Hlutverkaleikir eins og búaleikur stuðla að því að börn læri að setja sig í spor annarra og upplifi hluti sem þau kannski fá ekki í raunveruleikanum. Þau geta ráðið sjálf hvað þau gera í sínum leik og enginn segir þeim fyrir verkum. Þau geta líkt eftir fullorðnum og hermt eftir því sem þau hafa áður séð. Þau læra samvinnu og að taka tillit til annarra meðleikenda.

 

 

 

 

Eina Króna

Nafn nema: Inga Rún Ólafsdóttir

Dagsetning: 23. janúar 2016

Fæðingarár: 1992

Uppvaxtarstaður: Vopnafjörður/Sauðárkrókur

 

Ég fæddist árið 1992, nánari tiltekið þá fæddist ég 21. júlí það ár. Ég var lengi ein með mömmu og pabba en árið 1997 eignaðist ég litla systur. Systir mín var mikið á sjúkrahúsi fyrstu árin og því var ég oft niður í bæ hjá ömmu og afa. Ég eignaðist svo aðra systur 2003 og sumarið eftir (árið 2004) flutti ég frá vopnafirði. Ég eignaðist svo yngstu systur mína árið 2007. Á heimilinu eru því 5 stelpur og einn karlmaður. Ég bjó fyrstu 12 árin á Vopnafirði og ólst þar upp í sveit sem var 10 mínútur í burtu frá þorpinu.

Frænka mín sem var á sama aldri og ég, bjó á sveitabænum við hliðin á þannig það var alltaf hægt að leika. Við krakkarnir í sveitinni vorum dugleg að hittast og leika okkur í alls konar leikjum úti. Ég á tvær ömmur og tvo afa sem búa á Vopnafirði og því var ég oft í bænum eftir skóla meðan pabbi og mamma voru að vinna. Krakkarnir í bekknum voru rosalega duglegir að hittast á kvöldin og ég nýtti hvert tækifæri sem ég fékk að gista niður í bæ hjá ömmu og afa svo ég gæti tekið þátt í leikjunum á kvöldin. Aldurshópurinn sem lék sér saman var á aldrinum 8-12 ára.

Þegar ég rifja upp leiki sem voru vinsælir þegar ég var að alast upp þá eru allir leikirnir einhvers konar hópaleikir t.d. feluleikur, fallin spýta, klukk þú ert hann og eina króna. Ég man þó líka eftir því að hafa leikið mér mikið í barbie og mömmó á daginn.

Vinsælasti leikurinn sem var oftast leikinn á kvöldin var eina króna. Eina króna er leikur þar sem einn á að “vera’ann” og hann grúfir sig niður t.d við staur, hann á svo að telja upp í 40 meðan hlaupa allir hinir og fela sig. Síðan á sá sem “er’ann” að leita af hinum krökkunum og ef hann sér t.d Ingu þá hleypur hann að staurnum og segir “eina króna fyrir Ingu, einn, tveir, þrír” og þá er Inga úr leik. Það er líka hægt að bjarga sér ef maður er að fela sig með því að hlaupa á undan þeim sem “er’ann” og sagt “ eina króna fyrir mér, einn, tveir, þrír” og þá getur hann ekki orðið úr.

Í leik eins og eina króna læra börn samvinnu, hreyfingu sem felst í því að reyna að vera sem fljótastur að fela sig og hlaupa af staurnum. Í hópaleikjum eykst félagsþroski barna. Börnin læra að fara eftir reglum.