Teygjutvist

Nafn nemanda: Heiðrún Sif Garðarsdóttir

Dagsetning viðtals: 23. janúar 2014

Nafn viðmælanda: Heiðrún Sif Garðarsdóttir

Fæðingarár viðmælanda: 1983

Uppvaxtarstaður: Akranes

Bernska viðmælenda: Ég ólst upp á Akranesi í rólegu og frekar lokuðu hverfi/götu þar sem það var botnlangagata og ekki mikið um umferð. Ég man að flesta daga eftir skóla vorum við krakkarnir í götunni í útileikjum. Stundum vorum við í brennó, parís, snúsnú, teygjutvist og yfir. Það er góð minning frá þessum tíma, þar sem leikið var úti fram að kvöldmat og man ég að yfirleitt nennti maður alls ekki að hætta og fara inn að borða.

Aldur barna sem léku leikinn: 10-12 ára

Lýsing á leiknum: Teygjutvist- í þessum leik vorum við oftast fjögur eða fimm saman. Stundum vorum við systir mín bara tvær en þá notuðum við ljósastaur sem staðgengil fyrir eina manneskju, en það varð að vera allavega þrír sem voru í þessum leik. Notuð var teygja sem við settum fyrir aftan lappirnar á okkur. Ef það voru þrír saman þá varð úr einskonar þríhyrningur úr teygjunni sjálfri, ef fjórir þá kassi og þess háttar. Þetta gekk út á það að við byrjuðum með teygjuna alveg neðst við götuna, í raun á ökklanum á okkur. Svo átti einn að gera í einu og átti að taka tvö skref og hoppa í átt að einni hlið teygjunnar og lenda með einungis eina löpp á teygjunni. Ef hann náði öllum hliðum, þá átti næsti að gera og svo koll af kolli. Þegar fyrsta umferð var búin og allir gátu, þá var teygjan hækkuð. Það er skemmtileg minning frá þessum leik þar sem það var mikil áskorun og mikil spenna eftir því sem teygjan hækkaði.

Skemmtilegustu og vinsælustu leikirnir: Yfir, brennó, tvítví og eina króna (sem eru felu- og hlaupaleikir), teygjó, parís, snúsnú og hollí hú.

Tenging við nám: Í teygjutvist eru börn að þjálfa liðleika sinn og einnig að finna út hvernig sé best að taka þessi tvö skref og hoppa. Það krefst þess að þau þurfi að finna út úr því hvora löppina sé best að stíga í fyrst svo þau lendi með „betri“ löppinni. Í þessum leik er því hreyfing þar sem tengir það við námið, en ef nemendur eru duglegir að hreyfa sig, kemur það ósjálfrátt út þannig að þeir hafi meiri orku fyrir námið og skólann. 

Úlfur, úlfur

Nafn nemanda: Heiðrún Sif Garðarsdóttir

Dagsetning viðtals: 23. janúar 2014

Nafn viðmælanda: Guðrún Edda Júlíusdóttir

Fæðingarár viðmælanda: 1938

Uppvaxtarstaður: Akranes

Bernska viðmælenda: Að leika úti var eitthvað sem börn gerðu mikið að, léku í allskonar leikjum, eins og fallin spýta, eltingarleikjum og fleira. Einnig man hún eftir því að hafa leikið mikið í dúkkulísuleikjum, las mikið af bókum og er hún með skemmtilegar minningar um það að hafa stolist inn í herbergi hjá eldri systrum sínum að lesa dönsk tímarit, en það var eitthvað sem hún mátti alls ekki J

Aldur barna sem léku leikinn: 8-10 ára börn

Lýsing á leiknum: Úlfur, úlfur– Hlaupa-eltingarleikur þar sem einn var refurinn og átti að reyna að ná hinum. Þá var öskrað: Úlfur, úlfur, við þorum ekki yfir út af rebba. Allir hlupu yfir og rebbi átti að reyna að ná eins mörgum og hann gat.

Skemmtilegustu og vinsælustu leikirnir: Yfir, útilegumannaleikur og einnig gerðu krakkarnir oft vegi í kálgarðinum og keyrðu bílum um þá alla.

Það sem mátti ekki leika: Andaglas var alveg bannað og á sumum heimilum var stranglega bannað að spila á jólunum.

Tenging við nám: Þar sem þessi leikur er mikill hlaupaleikur hafa þau þjálfað þol og þrek, einnig hafa þau þurft að hugsa hvaða leið sé best að hlaupa til að komast undan þeim sem var að ná þeim. Þessi leikur er leikinn enn í dag og heitir „Stórfiskaleikur“, eða allavega er það  nafnið sem ég hef kynnst. Hann er mikið notaður í íþróttum í skólum og er oftast notaður sem upphitun fyrir næstu æfingar í hverjum íþróttatíma. 

Eina króna

Nemandi: Sóley Guðmundsdóttir

Fæðingarár: 1990

Bakgrunns upplýsingar:
Ég ólst að mestu leyti upp í Reykjavík en er þó með mikla tengingu við Dalasýslu þar sem ég eyddi heilu sumrunum í sveitini hjá ömmu og afa. Ég tel það mikil forrétindi að hafa fengið að upplifa tenginguna bæði við náttúruna og dýrin í svetini og einnig að hafa fengið að kynnast frelsinu þar.

Eina króna
Þetta er leikur sem að allir krakkarnir í hverfinu geta tekið þátt í. Einn „er‘ann“ og grúir sig upp við ákveðinn ljósastaur og telur upp í hundrað. Meðan hann telur eiga hinir að fela sig í nágrenninu. Þegar sá sem „er‘ann“ er búinn að telja á hann að reyna að finna hina krakkana en á sama tíma passa upp á ljósastaurinn. Krakkarnir sem að földu sig eiga að finna leið til þess að komast óséðir að ljósastaurnum. Um leið og þau komast að staurnum snerta þau og kalla „eina króna fyrir mér einn tveir og þrír“ Ef að sá sem „er´ann“ verður á undan að staurnum þá snertir hann staurinn og kallar „eina króna fyrir Kalla/Jónu“. Ef allir komast óséðir að ljósastaurnum þá er sá sem er‘ann“ úr leik annars er sá sem fyrst er náð næstur til þess að „ver‘ann“

Aldur barna sem léku leikinn: 6-12 ára

Aðrir leikir:
Ég var mjög hrifin af hlutverkjaleikjum og lék mér mikið með dúkkur og barbie. Einnig hafði ég gaman að allskonar spilum og lærði ung að leggja kapal hjá afa í sveitini.
Á sumrin voru útileikir vinsælir sérstaklega þegar ég varð eldri, þá söfnuðust margir krakkar saman úr hverfinu og fóru í allskonar leiki eins og Yfir og eina krónu.

Tenging við nám: 
Hópleikir krefjast samvinnu og ákveðinnar þolinmæði. Spil krefjast þess að börn kunni að telja og þau fá ágætis þjálfun í rökhugsun með því að spila spil.

Löggur og Bófar

Nemi: Sóley Guðmundsdóttir

Viðmælandi: Sólveig Guðmundsdóttir

Fæðingarár: 1969

Dagsetning viðtals: 23. janúar 2014

Uppvaxtarstaður: Kvennabrekka í Dalasýslu

Bakgrunnur Viðmælanda:
Sólveig er sú fjórða í röðini af sex systkinum. Hún ólst upp í sveit og stundaði nám í heimavistarskóla að Laugum í Sælingsdal frá átta ára aldri.

Aldur barna sem léku leikinn: 6-12 ára

Lýsing á leiknum:
Leikurinn byrjar á því að skipt er í tvö lið, löggur og bófar. Þeir sem eru löggur finna ákveðinn stað sem verður fangelsið. Um leið og leikurinn hefst þá hlaupa bófarnir af stað og reyna að fela sig fyrir löggunum. Löggurnar eiga að leita að bófunum og um leið og þeir ná bófa þá fara þeir með þá í fangelsið. Það er enginn sérstakur fangavörður við fangelsið þannig að þeir bófar sem eru lausir geta frelsað aðra fanga í fangelsinu með því að komast óséðir að því. Leiknum líkur þegar að allir bófarnir hafa verið fangaðir, ef tími gefst til þá skiptast bófar og löggur á hlutverki og leikurinn byrjar upp á nýtt.

Aðrir leikir:
Í heimavistarskólanum voru hópleikir vinsælir í frímínútum. Leikir eins og Snú-snú, brennó, kíló og fótbolti. Einnig var vinsælt að spila spil á kvöldin og vinsælustu spilin voru til dæmis: Rússi, vist, maríjas, hægosi og rommí.
Heima í sveitini voru hlutverkaleikir vinsælir, systurnar léku sér með barbí og dúkkulísur. Þær bjuggu einnig til húsgögn og föt fyrir dúkkurnar.

Tenging við nám: 
Í hópleikjum læra börn oft samvinnu og að vinna með öðrum. Í sumum leikjum er mikilvægt að kunna að telja. Flestir þessara leikja krefjast þess að farið sé eftir fyrirfram ákveðnum reglum og börn læra oft á því að fara eftir reglunum.

Upplifun nema:
Leikirnir sem Sólveig talaði um voru aðalega útileikir þar sem að margir krakkar gátu tekið þátt. Hún minntist þess að frímínúturnar voru oftast skemmtilegasti tíminn í skólanum og það hafi verið gaman að leika sér þar sem að allir tóku þátt og höfðu gaman að.

Frúin í Hamborg

Nemi: Sóley Guðmundsdóttir

Viðmælandi: Reynir Heiðar Antonsson

Fæðingarár: 1948

Dagsetning Viðtals: 19. janúar 2014

Uppvaxtarstaður: Akureyri og Fljótsdalshérað

Bakgrunnur viðmælanda:
Reynir fæddist aðeins með eitt auga og var mikið sjónskertur á hinu auganu. Fötlunin hafði áhrif á æsku hans en þrátt fyrir hana lék hann sér mikið, bæði einn með sjálfum sér og með öðrum börnum. Hann er elstur af fimm systkinum og eyddi stórum hluta af sínum æsku árum hjá ömmu sinni og afa Austur í Héraði. Þar var lítill hálf sjálfbær búskapur og hann tók þátt í daglegum störfum. Í sveitini voru ekki neinir leikfélagar og hann talaði um að hann hafi mikið leikið sér í ímyndunarleikjum og seinna þegar hann lærði að lesa þá las hann mikið.

Aldur barna sem léku leikinn: 6-12 ára(börnin í hverfinu)

Lýsing á leiknum:
Frúin í Hamborg er orðaleikur þar sem tveir leika í einu. Sá sem byrjar segir: „Hvað keyptiru fyrir peningana sem frúin í hamborg gaf þér í gær? Þú mátt ekki segja svart og ekki hvítt, ekki já og ekki nei.“ Hinn finnur eitthvað upp sem hann þykist hafa keypt og þátttakendurnir spjalla síðan saman um það og spyrjandinn reynir að fá hinn til að segja bannorðin því þá er hann búinn að vinna leikinn.

Aðrir leikir:
Reynir eyddi miklum tíma í sveitini hjá ömmu sinni og afa þar sem hann lék sér mikið einn í ýmsum ímyndunarleikjum og einnig lék hann sér með leikföng.
Um níu ára aldur byrjaði hann í skóla á Akureyri og lék sér mikið með börnunum í hverfinu. Leikirnir sem hann taldi upp voru til dæmis: Hlutverkaleikir þar sem kappar úr íslendingasögunum og Víkingar voru vinsælir, Slá bolt, Yfir, Stikk og allskonar þykjustuleikir

Tenging við nám:
Leikirnir sem hann nefndi voru flestir ágætis hugaleikfimi og mikið þurfti að husa til þess að verða góður í leikjunum. Sumir þessara leikja voru krefjandi líkamlega og þjálfuðu samhæfingu og þrek. Hann nefndi líka hlutverkaleiki þar sem að þekking á sögupersónum íslendingasagna var mikilvæg og krakkarnir hafa eflaust lært ýmislegt af hverju öðru.

Upplifun nenanda:
Reynir talaði um að hann hafi upplifað gamla tímann og upphafið á nýjum tíma þegar hann var ungur. Hann minnist æskunnar með mikilli gleði og hann hafði gaman að því að rifja upp góða tíma.

Inni fyrir að grípa.

Nafn nemanda: Elísabet Rut Heimisdóttir.

Nafn viðmælanda: Elísabet Guðbjörg Jónsdóttir.

Fæðingarár viðmælanda:  1945

Uppvaxtarstaður: Elísabet ólst upp á Akranesi.

Dagsetning viðtals: 21. janúar 2013

Leikir Elísabetar: við vorum mikið í yfir, inni fyrir að grípa og vorum mikið á skautum þegar það var hægt. Inni lékum við okkur aðallega með dúkkulísur og í allskonar dúkkuleikjum. Við vorum ansi dugleg að vera úti að leika á þessum tíma og það var ekki í boði fyrir börn að hanga inni allan daginn.

Inni fyrir að grípa: Hann er þannig að það eru 4 borgir og svo er skipt í lið. Eitt lið úti og eitt inni annað er að slá og hitt að grípa til að komast inn. Þessi leikur er mjög svipaður hornabolta.

Finnst þér börn í dag leika sér í samskonar leikjum?:  nei ekki svo mikið, allavega ekki eins mikið og var í þá daga þegar ég var ung. Mér finnst tölvur og sjónvarp hafa tekið svolítið mikið við af útileikjum. Eins finnst mér voðalega lítið um dúkkulísur, nánast ekki neitt en stelpur eru ennþá mikið að leika sér með annarskonar dúkkur.

Tenging við nám: Þessi leikur er íþrótt og tengist því einna helst. Hreyfing og snerpa.

 

Yfir

Nafn nemanda/ viðmælanda: Elísabet Rut Heimisdóttir

Fæðingarár: 1984

Uppvaxtarstaður: Ég er alin upp á Akureyri en flyt svo þaðan aftur á Akranes þar sem ég er fædd þegar ég er að verða 12 ára.

Leikir sem ég lék mér í: Þegar ég var á aldrinu 9- svona u.þ.b 14 ára var mikið um útileiki. Þá var farið í leiki eins og yfir, fallin spýta og að verpa eggjum. Einnig var á tímabili eitthvað æði hjá okkur, þá sérstaklega stelpunum að gera París og hafa eins langan og við nenntum hverju sinni. Í frímínútum í skólanum var mikið farið í snúsnú og strákarnir voru nokkuð duglegir að vera með þó þeir hefðu meiri áhuga á boltaleikjunum. Minn uppáhaldsleikur var samt alltaf yfir.

Yfir: Hann fór þannig fram að við skiptum í tvö lið sitt hvoru megin við lágreista byggingu, hentum bolta yfir húsið og kölluðum „yfir“, hitt liðið reyndi þá að grípa boltann. Ef það heppnaðist þá komu þau hlaupandi yfir og reyndu að hitta einhvern í hinu liðinu með boltanum og sá þurfti að ganga í raðir þeirra. Ef liðið greip ekki boltann þegar hann kom fljúgandi yfir þá hentu þau yfir aftur  með kallinu „yfir“,.

Finnst þér börn í dag leika sér í samskonar leikjum? Já ég held að börn séu ennþá að leika sér í yfir og öllum þessum leikjum sem ég nefni hérna að ofan. Hinsvegar er ég ekki viss hvort að þau geri eins mikið af því eftir að það varð svona mikið um tölvur og snjallsíma. Ég tel það þó vera ýkjur þegar fólk segir að börn séu hætt að leika sér og séu bara í símunum. Það er eflaust þannig í einhverjum tilfellum en alls ekki öllum og ekki hægt að alhæfa neitt um það.

 

Tenging leiksins við nám.

Tengingin er fyrst of fremst hreyfing og því íþróttir. Einnig snerpa og viðbrögð.

 

Höfðingjaleikur.

Nafn nemanda: Elísabet Rut Heimisdóttir

Nafn viðmælanda: Unnur Sigurðardóttir

Fæðingarár viðmælanda: 1955

Dagsetning viðtals: 19. janúar 2014

 

Uppvaxtarstaður: Unnur ólst upp í Stykkishólmi.

Leikir Unnar: Við lékum okkur mikið krakkarnir í hverfinu. Fórum í leiki eins og Höfðingjaleik, yfir, Hollý hú og feluleiki úti. Þeir voru vinsælastir og ég fór bara í þá leiki sem voru í gangi hverju sinni. Fannst þessir þrír mjög skemmtilegir segir Unnur. Það kom ekki til greina að börn væru inni allan daginn, enda höfðum við svosem ekki áhuga á því. Okkur þótti æðislegt að vera úti að leika okkur.

 

Höfðingjaleikur: Höfðingjaleikur er það sem kallað er brennibolti í dag. Hann fer þannig fram að skipt er í tvö lið sem eru í miðjunni, 2 vellir og svo höfðingjar við sitthvorn endann, höfðingjarnir reyndu að hitta þá sem voru andstæðingar, sem fóru þá yfir í hitt liðið. Safnað sem sé helst öllum í sitt lið með því að skjóta þá .

 

Finnst þér börn í dag leika sér í samskonar leikjum ? Sum börn já, eins og í feluleikjum og fela hlut, brennibolta ofl.

 

Tenging leiksins við nám.Það er mikla hreyfingu að hafa útúr þessum leik. Samvinna skiptir einnig máli og gott að þjálfa hana. Höfðingjarnir þurfa að vinna saman til að ná yfir í sitt lið og hinir þurfa að vera snöggir frá, sem krefst mikils hlaups og góðrar hreyfingar.

 

Hverfa fyrir horn

Nafn nema

Soffía Helgadóttir

Dagsetning

Janúar 2014

Nafn viðmælanda

Lára Guðnadóttir

Fæðingarár

1922

Uppvaxtastaður

Kárastígur, miðbær Reykjavíkur.

Síðar Breiðaból, Vatnsmýrinni Reykjavík (áður en flugvöllurinn kom, einangraðra þar -færri krakkar -hálfgerð sveit)

Aldur barna sem léku leikinn

8-9 ára, strax og krakkar gátu hlaupið eitthvað að ráði, og upp í unglinga.

Lýsing á leiknum:

Hverfa fyrir horn

Eltingarleikur þar sem krakkarnir áttu að hlaupa á milli horna og láta sig hverfa fyrir hornið áður en sá sem var að elta næði þeim. Sá sem var að elta varð að vera fljótur að hlaupa og snjall að átta sig á því hvert hinir létu sig hverfa og reyna að velja aðra leið til að koma á móti þeim á horn og ná þeim þannig.

Tíðarandinn:

Allstaðar lítið húsnæði og víða mörg börn í heimili. Því voru krakkarnir mest í útileikjum. Krakkarnir í götunni, hverfinu, léku saman útileiki. Mest feluleiki og boltaleiki. Nefnir Slábolta, einnig var vinsælt að ganga á stultum og búa til drullukökur.  

Tenging við nám:

Í leiknum hafa börnin þróað með sér rýmisgreind og ratvísi. Þau þurftu að vera vel kunnug húsunum í götunni, hverfinu, til að verða góð í leiknum. Þau hafa kynnst byggingum í nágreninu vel og einnig byggt upp þol og fengið útrás á hlaupunum.

Upplifun nema:

Virðist hafa verið mikið um hlaupaleiki og stór hópur barna leikið saman í hópleikjum úti.

Fallin spýta

Nafn nema

Soffía Helgadóttir

Dagsetning

Janúar 2014

Nafn viðmælanda

Sigríður Þórðardóttir

Fæðingarár

1959

Uppvaxtastaður

Syðstu – Garðar, Kolbeinsstaðahrepp, Vesturlandi

Aldur barna sem léku leikinn

Oftast krakkar um það bil á aldrinum 8 – 13 ára. Hún lék hann mest í kringum 10 – 12 ára.

Lýsing á leiknum:

Fallin spýta

Spýta var sett upp við húsvegg og einn grúfði og taldi þar við vegginn áður en hann fór af stað til að finna hina. Allir hinir földu sig og áttu svo að reyna að komast óséðir að spýtunni og hrópa ,,fallin spýta!“ Ef sá sem grúfði sá einhvern hinna, annað hvort í felum eða á leið að fella spýtuna kallaði hann ,,fundinn!“ og sá hin sami var þá úr leik. Sá sem var fyrstur ‘fundinn’ grúfði í næsta leik. Ef einhver náði að fella spýtuna var hann hólpinn og þurfti ekki að grúfa í næsta leik.

Tíðarandinn:

Viðmælandi elst upp á sveitabæ þar sem mjög stutt var í næstu bæi og mörg börn í kring á hennar aldri auk systkina sem voru nálægt henni í aldri. Það var því ekki óalgengt að börnin hópuðust saman í útileiki eins og Fallin spýta.

Viðmælandinn talaði um að ekki hafi verið mikið um innileiki vegna plássleysis. Það var aðalega spilað á spil þegar fólk var innivið.

Tenging við nám:

Læra að telja, þjálfa þol og hreyfingu við hlaupin og rýmisgreind við að fela sig.

Upplifun nema:

Þetta virðist hafa verið sá leikur sem henni þótti skemmtilegastur. Hún fór strax að tala um hann.